Ferðalagið

Hugmyndin að þessari ferð kviknaði fyrst í huga mínum fyrir mörgum árum þegar ég bjó í Noregi. Ég ferðaðist eitt sinn norður til Lofoten til þess að hjóla eyjaklasann endilangann. Ég heillaðist svo af svæðinu og sérstaklega fjöllunum að ég einsetti mér að snúa einhverntíman aftur til þess að klifra. Það tækifæri gafst síðastliði haust þegar leiðangursstyrkur 66Norður var auglýstur í annað sinn.

Tveir fallegir ungir menn voru tilbúnir í langtímaskuldbindingu, lofa því að koma með mér í klifurferð 10 mańuðum síðar. Við suðum saman umsókn byggða á draumsýnum og skýjaborgum og fengum styrkinn. Síðan þá hafa þeir báðir (næstum því) gift sig og annar eignast barn, hlutirnir gerast hratt. Það breytir því ekki að lagt verður af stað þann 16. ágúst 2010 á vit nýrra ævintýra norðan við heimskautsbaug!